Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 428. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 724  —  428. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2008.

1. Inngangur.
    Af þeim málum sem fjallað var um á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál á árinu 2008 leggur Íslandsdeild áherslu á eftirfarandi atriði sem segja má að hafi helst verið í brennidepli.
    Fyrst ber að nefna áttundu þingmannaráðstefnu nefndarinnar sem haldin var í Fairbanks í ágúst, en umræða tengd skipulagningu hennar var fyrirferðarmikil á árinu. Mikið var rætt um helstu þemu á dagskrá ráðstefnunnar sem voru heilbrigðismál á norðurskautssvæðinu, aðlögun að loftslagsbreytingum og orkuauðlindir og nýting þeirra. Á ráðstefnunni var sérstök umræða um stefnumótun um málefni hafsins á norðurskautinu. Fulltrúar Íslandsdeildar lögðu áherslu á umræðu um nýjar siglingaleiðir og björgunarmál í ljósi minnkandi hafíss á norðurskautssvæðinu og aukinnar kröfu alþjóðavæðingar um sífellt stærri flutningaskip. Auknar siglingar um norðurskautið munu hafa veruleg áhrif á Ísland sem gæti legið vel við sem umskipunarhöfn fyrir þessa miklu flutninga. Þeim tækifærum sem í þessu felast fylgir einnig nokkur áhætta, m.a. vegna meiri hættu á umhverfisslysum, en einnig aukin verkefni fyrir landhelgisgæsluna.
    Í öðru lagi voru umhverfismál og sérstaklega loftslagsbreytingar að venju mjög áberandi í umræðunni. Norðurslóðir einkennast af sérlega viðkvæmum vistkerfum og ljóst þykir að þróunin við norðurskaut sé eins konar fyrirboði þess sem verður annars staðar í heiminum. Hlýddu nefndarmenn á erindi sérfræðinga á sviði loftslagsbreytinga sem kynntu rannsóknir um þróun mála, áhrif á lífríki norðurskautsins og nýjar leiðir til að takast á við loftslagsbreytingar. Áhersla var lögð á aðlögun samfélaga á svæðinu í ljósi breyttra aðstæðna sem skapast með loftslagsbreytingunum. Heilsufarsleg, félagsleg og efnahagsleg vandamál frumbyggja voru í brennidepli.
    Í þriðja lagi var áhersla á Alþjóðaár heimskautasvæðanna (e. International Polar Year) sem gekk í garð í mars 2007 og var það haldið í þriðja sinn. Vísindamenn frá yfir 60 löndum taka þátt í rannsóknum alþjóðaársins sem lýkur í mars 2009. Markmiðið með árinu var stórátak í rannsóknum og athugunum á heimskautasvæðum jarðar. Þá var mikið rætt á árinu um nýtingu orkuauðlinda svæðisins á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt.

2. Almennt um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.
    Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem sett var á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjunum við norðurskaut, sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðursins varða. Meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er að skipuleggja þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er annað hvert ár og fylgja eftir samþykktum hennar sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Undanfarin ár hefur sérstök áhersla einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins.
    Í fyrstu sneru verkefni þingmannanefndarinnar aðallega að ýmsum málum sem viðkomu stofnun Norðurskautsráðsins árið 1996, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Nokkur samtök frumbyggja og ólíkra þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í ráðinu. Auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það fætt af sér margvísleg sameiginleg verkefni og stofnanir. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur leita leiða við að draga úr mengun á norðurslóðum. Þingmannanefndin hefur á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að hafa frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda.
    Undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 var gefin út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu, Arctic Climate Impact Assessment (ACIA). Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsókn á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Skýrslan vakti mikla athygli og hefur verið notuð sem eins konar grunnur að alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Allar spár skýrslunnar sýna að um næstu aldamót verði norðurskautshafsvæðið án íss og klaka að sumarlagi. Plöntutegundir og annað gróðurlendi færist æ norðar með hlýnandi loftslagi og vor- og sumartími lengist. Áætlað er að þær loftslagsbreytingar sem eiga sér stað á 10 ára tímabili á norðurslóðum gerist á 25 ára tímabili annars staðar. Hitastig á norðurslóðum hækkar að jafnaði tvisvar sinnum hraðar en annars staðar í heiminum. Þótt hitastig sé að jafnaði að hækka á norðurslóðum sem og á jörðinni allri sýnir skýrslan hins vegar að loftslagsbreytingar hafa mismunandi og ójöfn áhrif á ólík svæði jarðar. Á sumum stöðum hlýnar til muna á meðan aðrir staðir kólna þótt meðaltal hitastigs jarðar fari hækkandi. Þessar víðtæku loftslagsbreytingar hafa margs konar afleiðingar, svo sem hækkun yfirborðs sjávar og breytingu sjávarfalla. Hlýnandi hafstraumar leiða svo til enn örari loftslagsbreytinga.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Eftir alþingiskosningarnar 12. maí 2007 var ný Íslandsdeild skipuð 31. maí. Samkvæmt breytingum á þingsköpum gildir sú kosning deildarinnar fyrir allt kjörtímabilið. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Aðalmenn á starfsárinu 2008 voru Sigurður Kári Kristjánsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Gunnar Svavarsson, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Jón Bjarnason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru Illugi Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Karl V. Matthíasson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Álfheiður Ingadóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni, en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeild sækir ráðstefnuna sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeild kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og fær hún jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins. Arna Gerður Bang var ritari Íslandsdeildar.

4. Fundir þingmannanefndar 2008.
    Þingmannanefndin hélt fimm fundi á árinu. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður Íslandsdeildar, lagði áherslu á umræðu um siglingaleiðir og björgunarmál á fundum nefndarinnar og benti á mikilvægi málaflokksins. Hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir fundum þingmannanefndarinnar á árinu og þingmannaráðstefnunni í Fairbanks.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Rovaniemi, 29. febrúar 2008.
    Karl V. Matthíasson sat fyrir hönd Íslandsdeildar fund nefndarinnar, í fjarveru formanns. Hill-Marta Solberg, formaður nefndarinnar, stýrði fundinum. Þann 28. febrúar sótti þingmannanefndin málstofu með stjórnendum stofnana Háskóla norðursins.
    Fyrsta dagskrárefni fundarins var kynning Robert Kvile, yfirmanns á skrifstofu Norðurskautsráðsins, á starfsemi ráðsins. Hann sagði frá framvindu verkefnisins Varnarleysi og aðlögun vegna loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu sem byggist á viðamiklum yfirstandandi rannsóknum sérfræðinga. Stefnt er að því að kynna niðurstöður verkefnisins á ráðstefnu næsta haust.
    Næsti dagskrárliður fjallaði um eftirfylgni við sameiginlega málstofu þingmannanefndarinnar með stjórnendum stofnana Háskóla norðursins. Í málstofunni var sjónum beint að loftslagsbreytingum og þeim lagaramma sem á við norðurskautssvæðið. Þingmannanefndin ákvað að skipuleggja málstofu þar sem m.a. yrði skoðað nánar hvernig hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna (UNCLOS) mun eiga við norðurskautssvæðið þegar ísinn hörfar. Formanni og framkvæmdastjóra nefndarinnar var falið að finna tíma og stað fyrir málstofuna.
    Enn fremur kynnti Ole Henrik Magga verkefnisstjóri rannsóknarverkefnið EALÁT sem beinir sjónum að lífi hreindýrahjarða og hreindýrabúskap í ljósi loftslagsbreytinga. Aðstandendur verkefnisins leitast við að finna svör við því hvernig hreindýrahjarðir geta aðlagast breyttum aðstæðum sem skapast með loftslagsbreytingunum. Hvernig bregðast hreindýrin við hækkandi lofthita? Hvernig breytast skilyrði íss og snævar og hvaða áhrif hefur það á lífsskilyrði hjarðarinnar? Kjörorð verkefnisins er „lærum af hjörðinni“ sem hefur í för með sér að fylgst er grannt með hreindýrahjörðunum við öflun upplýsinga.
    Björn-Willy Robstad, framkvæmdastjóri þingmannanefndarinnar, sagði frá skipulagningu ráðstefnunnar í Alaska 12.–14. ágúst 2008 og fór yfir drög að dagskrá þar sem ræða átti m.a. málefni hafs og heilbrigðis. Þá upplýsti Harro Pitkänen, varaforseti Norræna fjárfestingarbankans, nefndarmenn um framvindu samvinnuverkefnis um samgönguleiðir í tengslum við Hina norðlægu vídd Evrópusambandsins. Hann sagði mikilvægt að bæta samgöngur og uppbyggingu á norðurskautssvæðinu með hagsæld framtíðar í huga. Í því sambandi væri samvinna mikilvæg auk þess sem hún kæmi í veg fyrir skörun og tvíverknað.
    Næsti dagskrárliður fundarins fjallaði um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Karl V. Matthíasson, formaður Vestnorræna ráðsins, tók til máls og lýsti yfir ánægju með þá ákvörðun nefndarinnar að fjalla um heilbrigðismál á ráðstefnunni í Fairbanks og lagði áherslu á mikilvægi þess að skoða sérstaklega misnotkun vímuefna á svæðinu. Hann sagði jafnframt frá auknum samskiptum Vestnorræna ráðsins við Evrópuþingið. Karl tók einnig til máls sem fulltrúi Íslandsdeildar þingmannanefndarinnar og sagði frá þróun mála á Íslandi. Hann greindi m.a. frá starfi nefndar á vegum utanríkisráðuneytisins sem vinnur að mótun heildrænnar stefnu um norðurskautsmál. Að vinnu nefndarinnar koma ráðuneyti, stofnanir og hagsmunaaðilar. Karl lagði einnig áherslu á aðkomu heimspekinga og siðfræðinga að rannsóknum á norðurskautssvæðinu.
    Nefndarmenn tóku ákvörðun um að veita Evrópuþinginu umboð til að kanna möguleika þess á að halda ráðstefnu þingmannanefndarinnar árið 2010.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Vladivostok, 29. maí 2008.
    Karl V. Matthíasson sat fyrir hönd Íslandsdeildar fund nefndarinnar, í fjarveru formanns. Helstu mál á dagskrá voru skipulagning ráðstefnu nefndarinnar í Fairbanks, umræða um dagskrárliði hennar og drög að ráðstefnuyfirlýsingu, auk kynninga af hálfu gestgjafanna á lífsháttum frumbyggja á svæðinu.
    Mikhail Nikolaev, fulltrúi þingmannanefndarinnar frá Rússlandi, bauð fundargesti velkomna til Rússlands og lagði í ræðu sinni áherslu á mikilvægi varanlegrar og friðsællar þróunar á norðurskautssvæðinu. Hann ræddi einnig um eftirrekstur Kiruna-yfirlýsingar nefndarinnar og hversu vel hann hafi tekist, sérstaklega í tengslum við hina norðlægu vídd. Í Kiruna-yfirlýsingu nefndarinnar, frá síðustu ráðstefnu sem haldin var í Kiruna 2006, er m.a. kallað eftir auknum fjárframlögum til rannsókna og samstarfs norðurskautsríkja um öryggi á hafinu, sérstaklega leitar- og björgunarmál. Einnig er lögð rík áhersla á að aðildarríkin móti stefnu við eftirfylgni skýrslu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum þar sem niðurstöður skýrslunnar yrðu kynntar á alþjóðavísu. Einnig er skorað á stjórnvöld norðurskautsríkja að auka aðgerðir til að draga úr gróðurhúsaáhrifum og styrkja fjölþjóðasamninga um umhverfismál norðurskautsins. Þá lýsti Nikolaev yfir áhyggjum af alvarlegum heilsufarsvandamálum á svæðinu, sérstaklega í Rússlandi. Næstur tók til máls Vasily Usoltsev og bauð nefndarmenn velkomna til heimaborgar sinnar Vladivostok. Hann lagði í máli sínu áherslu á að í Dúmunni hefðu verið teknar mikilvægar ákvarðanir varðandi bætt réttindi frumbyggja í norðri, sérstaklega í tengslum við veiðar á sjó og landi. Þá ávörpuðu einnig fundinn Igor Pushkaev, borgarstjóri Vladivostok, Ruslan Kontraktov, varaþingmaður Dúmunnar, og Vladimir Zakharov, formaður nefndar um umhverfismál í rússneska þinginu.
    Næsta dagskrárefni fundarins var kynning Anotoliy Startsey prófessors á félags- og efnahagslegum vandamálum frumbyggja í Rússlandi. Hann ræddi sérstaklega um timburiðnaðinn og sagði hann aldrei hafa tekið mið af hagsmunum innfæddra. Lagaákvæði eru til sem eiga að vernda réttindi innfæddra til að nýta landið en þau eru ekki virt, hvorki af fyrirtækjum, samtökum né yfirvöldum á svæðinu. Þá tóku til máls Pavel Sulyanziga, formaður samtaka rússneskra frumbyggja í norðri, og Valentine Chernyavskaya prófessor sem kynnti verkefni um þróun fámennra hópa frumbyggja í Austur-Rússlandi með áherslu á séreinkenni þjóðflokka. Þau gagnrýndu bæði harðlega áhugaleysi stjórnvalda á vandanum og kölluðu eftir auknu samráði og viðræðum við frumbyggjana og betri tengsl milli þeirra og stjórnvalda.
    Isaac Edwards, ráðgjafi frá skrifstofu öldungadeildarþingmannsins Lisu Murkowski frá Bandaríkjunum, fór yfir drög að dagskrá ráðstefnunnar í Fairbanks og lýstu nefndarmenn yfir ánægju með skipulagninguna. Karl V. Matthíasson lagði til að Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra yrði boðið að taka þátt í ráðstefnunni og halda erindi um öryggismál á norðurslóðum. Vel var tekið í tillöguna. Framkvæmdastjóri þingmannanefndarinnar, Björn-Willy Robstad, kynnti fyrstu drög að ráðstefnuyfirlýsingu nefndarinnar og fór yfir uppbyggingu hennar og framkvæmd. Robert Mills, nefndarmaður frá Bandaríkjunum, lagði áherslu á að yfirlýsingin væri stutt og skorinorð. Því næst voru fundarmenn upplýstir um þróun mála varðandi umræðufund hjá Sameinuðu þjóðunum sem fyrirhugaður var 4. júní 2008. Fulltrúi frá þingmannanefndinni, Juliane Henningsen frá Grænlandi, mun taka þátt í fundinum sem er undirbúinn með aðstoð frá fastanefnd Sameinuðu þjóðanna gagnvart Noregi.
    Enn fremur var fjallað um Kiruna-yfirlýsinguna frá þingmannaráðstefnu nefndarinnar árið 2006 og eftirfylgni við hana. Robert Mills lagði áherslu á mikilvægi þess að fylgja eftir afrakstri Alþjóðaheimskautaársins. Hann sagði sérstaklega brýnt að fylgja eftir þeim niðurstöðum sem fengnar hefðu verið með vísindalegum rannsóknum varðandi loftslagsbreytingar og áhrif íbúa þeirra á lifnaðarhætti á norðurskautinu.
    Næsti dagskrárliður fundarins fjallaði um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Karl V. Matthíasson, formaður Vestnorræna ráðsins, tók til máls og upplýsti fundargesti um starfsemi Vestnorræna ráðsins, en þar bar hæst þemaráðstefnu ráðsins um samstarf í leitar- og björgunarmálum á Norður-Atlantshafi 5.–8. júní. Robert Mills sagði nefndarmönnum frá framkvæmd G8 + 5 hópsins við að minnka útgeislun gróðurhúsalofttegunda. 95% af samkomulaginu hafa náðst og verður næsti fundur hópsins haldinn í Tókýó 27.–30. júní nk. Lofar þessi árangur góðu og mun hjálpa til við að ná frekara samkomulagi í Kaupmannahöfn 2009.

Þingmannaráðstefna um norðurskautsmál og fundir þingmannanefndar í Fairbanks, 12.–14. ágúst 2008.
    Áttunda þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál var haldin í Fairbanks í Alaska 12.–14. ágúst 2008. Fulltrúar ellefu þinga sóttu ráðstefnuna, ásamt öðrum gestum. Ráðstefnuna sóttu fyrir hönd Alþingis Sigurður Kári Kristjánsson, formaður Íslandsdeildar, Gunnar Svavarsson, varaformaður, og Jón Bjarnason. Ráðstefnan hófst með því að gestir voru ávarpaðir og boðnir velkomnir af bandaríska öldungadeildarþingmanninum Lisu Murkowski, Mark Hamilton, forseta Háskóla Alaska, Patriciu Cochran, framkvæmdastjóra ráðs Inúíta á norðurskautssvæðinu, og Sarah Palin, ríkisstjóra Alaska og varaforsetaefni Johns McCain í forsetakosningunum sem fram fóru í Bandaríkjunum í nóvember 2008.
    Fyrsti hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um heilsufar á norðurskautssvæðinu og málefnum hafsins. Alan Parkinson, aðstoðarframkvæmdastjóri rannsóknarmiðstöðvar um heilsufar á norðurslóðum, hélt erindi og lagði áherslu á mikilvægi þess að gerð yrði áætlun um heilsufarsmál á svæðinu innan Norðurskautsráðsins. Brýnt væri að horfast í augu við þann vanda sem blasti við þegar heilsufar frumbyggja væri skoðað og því afar mikilvægt að veita samfélögum og hagsmunaaðilum leiðsögn um hvernig best mætti nýta og miðla þeim rannsóknarniðurstöðum sem til væru. Þá hélt Björn Bjarnason dómsmálaráðherra erindi um borgaraleg viðfangsefni við gæslu öryggis á Norður-Atlantshafi og tók þátt í pallborðsumræðum um málefni hafsins. Björn ræddi um áhuga íslenskra stjórnvalda á beinum aðgerðum og hugmyndum sem stuðla að friðsælli og öruggri þróun á norðurskautssvæðinu við þær nýju aðstæður sem loftslagsbreytingar skapa. Enn fremur fjallaði Hill-Marta Solberg, formaður þingmannanefndar um norðurskautsmál, um starf nefndarinnar frá síðustu ráðstefnu í Kiruna árið 2006. Hill-Marta lagði áherslu á mikilvægi Norðurskautsráðsins og taldi tímabært, með auknum verkefnum og áskorunum, að fjölga ráðherrafundum ráðsins úr einum fundi annað hvert ár í árlega fundi. Einnig væri afar brýnt að auka samvinnu Norðurskautsráðsins við ríki utan norðurskautssvæðisins, sérstaklega ef haft væri í huga að mengun á svæðinu kemur aðallega frá ríkjum utan svæðisins. Karl V. Matthíasson, formaður Vestnorræna ráðsins, tók til máls og sagði frá niðurstöðum þemafundar ráðsins fyrr á árinu þar sem lögð var áhersla á aukið samstarf landa við Norður-Atlantshaf um leitar- og björgunarmál.
    Annar hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um aðlögun að loftslagsbreytingum. Mead Treadwell, formaður bandarískrar nefndar um rannsóknir á norðurskautinu, hélt fyrirlestur um aðlögun að loftslagsbreytingum í Alaska. Hann sagði afar mikilvægt að tryggja það að á meðan barist væri gegn loftslagsbreytingum væri jafnframt lögð áhersla á aðlögun að þeim breytingum sem af hennar völdum hafa orðið. Þá ræddi Robert Mills, þingmaður frá Kanada og formaður umhverfisnefndar, um nýjar leiðir til að takast á við loftslagsbreytingar. Hann sagði tækniframfarir nauðsynlegar og lagði áherslu á að fjallað yrði um nýjar hugmyndir varðandi orkunotkun og nýtingu og ræddi í því samhengi sérstaklega um sólarorku og kosti hennar sem orkugjafa.
    Þriðji hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umræðu um orkuauðlindir og nýtingu þeirra. Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri hélt erindi um jarðvarma og reynslu Íslendinga við nýtingu hans og möguleika annarra þjóða sem búa yfir jarðvarma. Guðni fræddi ráðstefnugesti einnig um Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfar eftir samningi milli Háskóla Sameinuðu þjóðanna í Tókýó og Orkustofnunar f.h. íslenska ríkisins. Jarðhitaskólinn hefur verið starfræktur frá 1979 og er hlutverk hans að veita ungum sérfræðingum, einkum frá þróunarlöndum, sérstaka þjálfun í rannsóknum og nýtingu á jarðhita. Skólinn er þannig mikilvægur þáttur í þróunaraðstoð Íslendinga.
    Undir lok ráðstefnunnar var samþykkt yfirlýsing sem að hluta til er beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins. Þar er m.a. kallað eftir mati á áhrifum loftslagsbreytinga á heilsufar íbúa svæðisins, vinnu við þróun samræmdra og árangursríkra reglna til að draga úr mengun skipa sem sigla um Norðurhöf og auknum rannsóknum á loftslagsbreytingum með áherslu á félagslegar og efnahagslegar þarfir íbúa svæðisins. Íslensku þingmennirnir lögðu mikla áherslu á aukið samstarf norðurskautsríkja um öryggi á hafinu, einkum um leitar- og björgunarmál, og mælti Sigurður Kári Kristjánsson sérstaklega fyrir þeirri tillögu. Voru öryggismálum á hafsvæðinu gerð góð skil í yfirlýsingunni auk þess sem áhersla var lögð á að þeir hafréttarsáttmálar sem væru í gildi á svæðinu væru virtir af alþjóðasamfélaginu. Þá var lögð áhersla á vaxandi mikilvægi svæðisins út frá landfræðilegri stöðu.
    Við gerð yfirlýsingarinnar var skipuð sérstök nefnd sem hittist á fjórum fundum og fór yfir þær athugasemdir og tillögur sem lagðar voru fram. Á fyrsta fundi nefndarinnar lýsti Sigurður Kári Kristjánsson yfir óánægju sinni með það að í upphafi yfirlýsingarinnar var Ilulissat-yfirlýsingunni frá 28. maí 2008 fagnað sérstaklega. Sigurður Kári taldi rétt að fella málsgreinina út þar sem íslensk stjórnvöld hefðu verið ósátt við að eiga ekki aðild að þeim viðræðum um norðurskautið sem þar fóru fram. Sigurður Kári lagði áherslu á að Norðurskautsráðið væri vettvangur umræðu um norðurskautsmál og taldi brýnt að nýta hann sem slíkan með þátttöku allra aðildarríkjanna. Voru fundarmenn almennt sammála um að rétt væri að taka málsgreinina út úr drögum yfirlýsingarinnar og lagði formaður nefndarinnar það ítrekað til þar sem hún væri aukaatriði í yfirlýsingunni. Danski þingmaðurinn Erling Bonnesen lagði á það ríka áherslu að Ilulissat-yfirlýsingarinnar yrði getið í yfirlýsingunni. Í framhaldinu unnu fulltrúar Dana og Íslendinga að málamiðlun sem báðir voru sáttir við þar sem Ilulissat-yfirlýsingarinnar er getið en tekið fram að Íslendingum hefði verið umhugað um að öll ríki Norðurskautsráðsins væru þátttakendur í umræðu um svæðið. Yfirlýsingin var samþykkt og kynnt ráðstefnugestum.
    Þá bauð Diana Wallis, þingmaður Evrópuþingsins, þátttakendur velkomna til næstu ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem haldin verður í höfuðstöðvum Evrópuþingsins í Brussel árið 2010.
    Þingmannanefnd um norðurskautsmál hélt tvo fundi samhliða ráðstefnunni og sótti Sigurður Kári fundina sem fulltrúi Íslandsdeildar. Á fyrri fundi nefndarinnar var farið yfir dagskrá ráðstefnunnar og drög að yfirlýsingu hennar. Nefndarmönnum var gefinn kostur á að gera athugasemdir við drögin og þeim var síðan komið á framfæri við nefnd sem vann að gerð yfirlýsingar ráðstefnunnar. Á síðari fundi nefndarinnar var Hill-Marta Solberg, fulltrúi norska þingsins, endurkjörin formaður nefndarinnar til tveggja ára og Björn-Willy Robstad, starfsmaður norska þingsins, endurráðinn framkvæmdastjóri.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Östersund, 6. nóvember 2008.
    Sigurður Kári Kristjánsson sat fund nefndarinnar fyrir hönd Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru eftirfylgni við yfirlýsingu Fairbanks-ráðstefnunnar, Alþjóðaheimskautaárið, áhrif loftslagsbreytinga og lýðfræðileg þróun á norðurskautssvæðinu.
    Hill-Marta Solberg, formaður nefndarinnar, bauð fundargesti velkomna til Östersund og lýsti yfir ánægju með vel heppnaða ráðstefnu nefndarinnar í Fairbanks í ágúst 2008. Í ávarpi sínu lagði hún áherslu á mikilvægi þess að nefndarmenn kynntu yfirlýsingu ráðstefnunnar og helstu niðurstöður í þingum aðildarríkjanna.
    Peter Sköld, frá rannsóknarmiðstöð Sama í Háskólanum í Umea, hélt fyrirlestur um lýðfræði og frumbyggja norðurskautsins. Hann sagði skort á fullnægjandi þekkingu á málefnum frumbyggja oft og tíðum vinna gegn hagsmunum þeirra. Ábyrgð hinna norðlægu ríkja væri mikil gagnvart málefnum norðursins og ekki síst frumbyggjum svæðisins. Hann lagði áherslu á að háskólar á norðurslóðum beindu sjónum sínum í auknum mæli að málaflokknum. Þá ræddi hann um skort á upplýsingum um fjölda Sama á svæðinu, hverjir væru skilgreindir sem Samar og þörf fyrir aukna alþjóðlega samvinnu og fjármagn.
    Hill-Marta Solberg fór stuttlega yfir aðkomu þingmannanefndarinnar að hinni norðlægu vídd Evrópusambandsins og gaf því næst Henrik Olsen frá skrifstofu Evrópuþingsins orðið. Henrik upplýsti nefndarmenn um undirbúning fyrsta fundar þingmannavettvangs hinnar norðlægu víddar sem haldinn verður í Brussel 25.–26. febrúar 2009. Mikhail Nikolaev, þingmaður frá Rússlandi, bað fundarmenn að minnast tillögu sem hann lagði fyrir nefndina varðandi hina norðlægu vídd og óskaði eftir því að hún yrði tekin upp á næsta fundi nefndarinnar í febrúar 2009. Enn fremur ræddi Ingemar Naslund, frá stjórnsýslu héraðsins, um afleiðingar loftslagsbreytinga í Östersund og nágrenni. Þá var stuttlega fjallað um Kiruna-yfirlýsinguna og eftirfylgni við hana.
    Næsti dagskrárliður fundarins fjallaði um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður Íslandsdeildar, tók til máls og gagnrýndi bresk stjórnvöld harðlega fyrir beitingu hryðjuverkalaga gegn Landsbanka Íslands. Hann sagði að fyrir því væru engin fordæmi að aðildarríki NATO beitti hryðjuverkalögum gegn öðru NATO-ríki og í raun væri um misbeitingu laganna að ræða þar sem algjörlega væri horft fram hjá upprunalegum tilgangi þeirra. Með beitingu laganna gegn Íslandi og Íslendingum hefðu bresk stjórnvöld sett þjóðina í hóp með talíbönum, hryðjuverkasamtökunum Al Kaída, Norður-Kóreu, Íran og Súdan sem Bretland hafði áður beitt sambærilegum aðgerðum gegn. Slíkum aðgerðum lýsti Sigurður Kári sem fullkomlega óásættanlegum. Hann benti enn fremur á að í öðrum ríkjum þar sem íslenskir bankar hefðu starfrækt útibú hefðu ríkisstjórnir unnið faglega með íslensku bönkunum við að leysa þau vandamál sem komið hefðu upp í kjölfar fjármálakreppunnar. Í framhaldinu hvatti hann þingmenn aðildarríkjanna til að koma á framfæri sambærilegri gagnrýni gagnvart breskum stjórnvöldum og misbeitingu laganna. Kári Højgaard, formaður Vestnorræna ráðsins, tók í sama streng og gagnrýndi Breta í ræðu sinni fyrir beitingu hryðjuverkalaganna gegn Íslandi.

Alþingi, 13. mars 2009.



Sigurður Kári Kristjánsson,


form.


Gunnar Svavarsson,


varaform.


Jón Bjarnason.